31.1.2014 | 09:43
Orkuveitan, ótrúlegt fyrirbæri þar sem menn geta þó lært hvernig ekki á að stjórna fyrirtæki.
Ég er en að velta fyrir mér þessu fyrirbæri sem kallast Orkuveitan. Það er með ólíkindum hvernig stjórnendur völdust þarna til starfa þegar OR tók til starfa um aldamótin. Ég vil meina að það sé verðugt rannsóknarefni að skoða það. Það var eins og það fólk sem kom frá gömlu veitunum RR,HR,VR væri óhæft og gamaldags og kunni sára lítið ef nokkuð. Nýir tímar var sagt og menn áttu að skilja það annars gátu þeir komið sér á brott. Þessir nýju herrar kunnu þetta allt betur og þurftu ekki nokkra tilsögn. Orkuveitan er vissulega afar mikilvægt fyrirtæki fyrir okkur sem búum hér á höfuðborgarsvæðinu, fyrirtæki sem við öll þurfum á að halda og er í eigu okkar. Hvaðan kom þetta ólánsfólk, kom það þarna inn á sínum verðleikum? Nei það var eitthvað annað sem réði því hvers konar labbakútar komu þarna til starfa.
Í um 10 ár tókst þessu liði að blekkja og ljúa og það tjón sem það olli er ekkert smávegis. Framkoma þessa fólks og hvernig það virkaði var öðruvísi en menn höfðu kynnst. Margt úrvalsfólk hrökklaðist undan þessum böðlum, fólk sem hafði tekið þátt í að koma þeim fyrirtækjum til vegs og virðingar sem OR varð til úr. Það er sorglegt að sjá hvernig menn hafa haldið á málum eftir að lýðnum varð ljóst að búið var að sigla skútunni á strand eins og núverandi forstjóri orðaði það. Það bara hlýtur að vera eðlileg krafa að það ólánsfólk sem tók þátt í þessum óskapnaði sé látið taka pokann sinn, nóg hefur það afrekað og valdið skaða og sárindum sem aldrei verða bættir. Ég er viss um að ef menn færu vel ofaní saumana á þessu þá mætti læra mikið á hvernig EKKI á að reka fyrirtæki og hvernig stjórnendur við viljum EKKI hafa. Verkin tala svo ekki verður um villst. Það á engum að líðast slík framkoma sem þetta fólk hefur sýnt.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.